Slökun – leið að betri líðan

Í nútíma þjóðfélagi er margt sem getur stuðlað að streitu og vondri líðan. Hraði, tímaleysi, kröfur og álag ásamt ýmiss konar mótlæti skipta hér miklu. Á móti kemur að það er margt sem stuðlað getur að betri líðan. Slökun er andstaða spennu og streitu og er einföld og aðgengileg leið til þess að láta sér líða betur.

Hér er kynnt til sögunnar slökun sem gerir fólki kleift að breyta líðan sinni til betri vegar. Um er að ræða s.k. vöðvaslökun sem er bæði einföld og mjög gagnleg og  hefur margsannað gildi sitt. Það eina sem þú þarft að gera er að finna þér ákveðinn tíma dags sem hentar til hlustunar. Það skiptir ekki máli hvaða tíma þú velur en því meira sem þú kemur þér upp föstum daglegum vana því betra. Mikilvægt er að hafa gott næði. Því oftar sem þú hlustar því betri slökun munt þú ná.

Hvað er á disknum? 

Slökunin er í tveimur þáttum, Slökun 1 og Slökun 2. Ég mæli með að þú tileinkir þér fyrri slökunina fyrst. Hún er n.k. grunnur fyrir Slökun 2 og ein til tvær vikur fyrir Slökun 1 hefur reynst flestum nægjanlegur tími. Þegar þú hefur náð góðum árangri eftir að hafa farið í gegnum báða þættina getur þú hvenær sem er hlustað á aðra hvora slökunina eftir því sem þér þykir henta. Hér á eftir kemur nánari lýsing á hvorum slökunarþætti fyrir sig.

Slökun 1

Þessi þáttur tekur u.þ.b. 15 mínútur. Vöðvaslökun er mjög áhrifarík aðferð til þess að ná fram slökun. Hún byggist á því að spenna vöðvana og halda spennunni stutta stund og sleppa henni síðan. Þá gerist það af sjálfu sér að slökun fylgir í kjölfarið. Í þessum þætti er farið kerfisbundið yfir allan líkamann. Það lærist að slaka á öllum vöðvum og þekkja spennustig líkamans. Hóflega slökum vöðvum fylgir góð andleg líðan eins og yfirvegun og öryggi.

Slökun 2

Í þessari slökun er farið hraðar yfir sögu og tekur aðeins um 10 mínútur. Hér er slökunin kölluð fram án þess að vöðvarnir séu spenntir fyrst. Athyglin beinist að því að dýpka slökunina og taka eftir þeirri þægilegu líðan sem fylgir í kjölfarið.