Dáleiðsla
Dáleiðsla er jafnan ekki skilgreind sem sjálfstæð meðferð, henni er frekar hægt að lýsa sem aðferð eða tækni sem nýtist í annarri og heildstæðari meðferð. Einungis þeir sem hafa til þess þjálfun og full réttindi (s.s. sálfræðingar) eiga að nota dáleiðslu og þá til þess að liðsinna þeim í þeirri meðferð sem þeir hafa menntun og þjálfun til að stunda.
Dáleiðsla felur í sér notkun s.k. sefjana sem gefnar eru kjölfar innleiðslu og einkennist oft af góðri slökun, einbeitingu og innlifun. Sefjanirnar snúa að því að upplifa breytingar á skyni, skynjun, hugsunum og hegðun. Flestir upplifa dáleiðslu sem ákaflega þægilega.
Þótt yfir dáleiðslu hvíli oft mikil dulúð og hún sé á stundum kynnt sem töfralausn þá er raunin sú að hún nýtist vel í meðferð margs konar vandamála s.s. við kvíða, depurð, sársauka, ýmiss konar ávana og meltingarkvillum eins og iðraólgu.
Dáleiðslufélag Íslands er félag þeirra sem hafa löggildingu sem háskólamenntaðir heilbrigðisstarfsmenn og vilja nýta sér dáleiðslu í vinnu sinni með fólk. Félagið er í Alþjóðasamtökum dáleiðslufélaga og hafa gert siðareglur þeirra samtaka að sínum. Á vegum þessara samtaka eru haldnar reglulegar ráðstefnur sem félögum DÍ stendur til boða að sækja. Þá eru margir félagar í D.Í í Evrópusamtökum dáleiðslufélaga. Undirritaður er fyrrverandi formaður Dáleiðslufélags Íslands.