Námskeið
Betri líðan – Betri heilsa
Af hverju námskeið hjá sálfræðingi? Áður fyrr var talað um samband sálar og líkama. Í seinni tíð er frekar talað um tengsl hegðunar og heilsufars eða samspil tilfinninga og heilsu. Það hefur komið æ betur í ljós að þar er um flókið samspil að ræða. Góð andleg líðan stuðlar að betri líkamlegri heilsu og hún hjálpar til þess að ná góðri heilsu þegar á móti blæs.
Það er flestum ef ekki öllum mikið áfall að veikjast. Vanlíðan í formi kvíða eða þunglyndis er mjög algeng. Þetta gerir alla aðlögun og breytingar erfiðari. Þrátt fyrir íþyngjandi einkenni er það fæstum auðvelt að breyta óheppilegum venjum eða t.d. að ná betri tökum á streitu. Oft verður grundvallar breyting sem á högum þeirra sem veikjast og kalla á endurskoðun og uppgjör.
Það eru því fjölmörg verkefni sem kalla á sálfræðilega nálgun. Námskeið hjá sálfræðingi er ætlað að taka á mörgu því sem fer úrskeiðis við veikindi og finna leiðir til þess að færa það til betri vegar.
Námskeiðið er blanda af fræðslu um ákveðin efni og umræðum í kjölfarið Lögð er áhersla á reynslu þátttakenda af veikindum, meðferð og öllu því sem veikindin hafa í för með sér. Þátttakendur fá tækifæri til að rekja eigin sögu, setja sér markmið, minnka streitu og tileinka sér slökun, takast á við tilfinningar sínar og viðhorf. Þá fá þeir stuðning og leiðsögn við að aðlagast breyttri stöðu og öðlast sátt. Þetta námskeið verður í boði öðru hverju og verður þá kynnt sérstaklega á heimasíðunni.