Streita

Allir hafa fundið fyrir streitu og það er margt sem getur valdið streitu. Kjarninn í streitu er þegar okkur finnst við ekki ráða nógu vel við það verkefni sem við stöndum frammi fyrir. 

Streita varir oft stutt og tengist ákveðnum aðstæðum. Dæmi um slíkt er að lenda í mikilli umferðarteppu. Þetta afbrigði kallast bráð streita. Helstu einkenni eru tilfinningaviðbrögð s.s. pirringur en líka líkamleg einkenni eins og aukin vöðvaspenna, meltingareinkenni eða aukinn hjartsláttur.

Stundum varir streitan hins vegar  mun lengur og fer að einkenna háttarlag okkar t.d. að vera alltaf of sein, taka að okkur of mörg verkefni, vera stutt í spuna og hafa sífelldar áhyggjur. Önnur einkenni streitu af þessari gerð eru t.d. viðvarandi spenna, höfuðverkur og of hár blóðþrýstingur.

Þriðja og alvarlegasta afbrigðið af streitu er langvinn streita. Meðan bráð streita getur fyllt okkur krafti þá er langvinn streita eyðileggjandi. Hún skemmir líkama okkar, sál og tilveru. Hún er oft til staðar þar sem kringumstæður eru erfiðar s.s. vegna fátæktar, viðvarandi óhamingju, mikillar vanmáttarkenndar. Til þess að vinna bug á streitu þarf að beita ýmsum ráðum sem m.a. sálfræðin býr yfir.