Um sálfræðimeðferð 

Fólk leitar til sálfræðings af ýmsum ástæðum. Það er þó öllum sameiginlegt að vilja öðlast betri líðan. Sálfræðimeðferð kallar á ítarlega skoðun á tilfinningum, hugsunum, viðhorfum, sögu og kringumstæðum. Hún leitar að skilningi á því hvernig líðanin er komin til og varðar síðan leiðina að betri líðan.

Engir tveir einstaklingar eru eins og meðferð tekur ætíð mið af sérstöðu hvers og eins. Um er að ræða sameiginlegt ferðalag skjólstæðings og sálfræðings í átt að betri líðan. Þessi vegferð er ekki án fyrirheits en hún er jafnan án tryggingar. Allar líkur eru þó á að meðferðin skili tilætluðum árangri í betri líðan. 

 Í upphafi skyldi endinn skoða. Sálfræðimeðferð er hvorki skammtíma- né skyndilausn. Hún kallar á samvinnu til ákveðins tíma. Það er nokkuð mismunandi hvað meðferð tekur langan tíma en ekki er óvarlegt að horfa á 10 til 20 tíma sem almennt viðmið. Oft kýs fólk að halda áfram um lengri hríð og nýta sér þennan vettvang í þeim verkefnum sem það stendur frammi fyrir. Ekki er óalgengt að byrja með 5  tímum og að þeim loknum verði tekin ákvörðun um framhaldið.