Íþróttasálfræði
Flestum er ljóst að árangur í íþróttum ræðst ekki bara af líkamlegum styrk eða getu. Sálfræðilegir þættir eins og yfirvegun, einbeiting og sjálfsöryggi skipta gífurlega miklu. Tök á þessum þáttum er oft það sem skilur á milli þeirra sem sigra og hinna sem ná ekki jafn langt.
Þá er það reynsla margra að undir pressu nýtist illa eða ekki sú geta sem menn búa yfir. Það er hins vegar ekki alveg augljóst hvernig fara eigi að því að ná tökum á þessum þáttum. Slíkt kallar á skipulagða þjálfun og markviss vinnubrögð, oft kallað hugaþjálfun. Markmiðið er að í móti eða keppni geti góð andleg líðan tryggt að öll geta og þjálfun nýtist til fulls. Annað verkefni sálfræðinga sem snýr að íþróttum er úrvinnsla vegna mótlætis eða vonbrigða. Slík staða er óhjákvæmileg en öllu skiptir að gefa því ekki of mikið vægi. Þá glíma íþróttamenn eins og allir aðrir við ýmiskonar persónuleg vandkvæði sem trufla frammistöðu og þurfa oft aðstoð við úrlausn þeirra.