Sambandserfiðleikar

Í hugum flestra á náið samband, sambúð eða hjónaband að fela margt í sér s.s. nánd, öryggi, traust, félagsskap, sameiginleg verkefni og uppbyggileg samskipti. Það er því flestum mikil raun að uppgötva að þær vonir sem gerðar voru til sambandsins virðast vera að bresta.

Ástæðurnar geta verið fjölmargar og það sem erfiðleikarnir hverfast um sömuleiðis.  Flestir sem leita sér aðstoðar hafa glímt við vandann nokkuð lengi án þess að viðunandi lausn hafi fundist. Stundum eru það erfiðar kringumstæður sem reyna mjög á sambandið s.s. tæpur fjárhagur eða mikil veikindi, hjá öðrum kann það að vera ákveðin vandamál eins og drykkja eða önnur fíkn en hjá ansi mörgum kunna tilfinningar að hafa breyst, þær dofnað og fólk fjarlægst hvort annað eða tilfinningar hafa beinst að öðrum. Í öllum tilvikum skiptir það miklu að gera upp málin, hvort sem það leiðir til áframhaldandi sambúðar eða sambúðarslita.